Eiður Smári Guðjohnsen og félagar í Barcelona urðu að sætta sig við eitt stig í kvöld þegar liðið mætti Betis á útivelli í leik sem frestað var í haust. Heimamenn komust yfir undir lok fyrri hálfleiks en Rafael Marquez tryggði Barcelona stig með góðu marki á 61. mínútu.
Annars voru Börsungar heppnir að tapa ekki leiknum þegar Betis fékk dauðafæri á lokasekúndunum. Eiður Smári kom inn sem varamaður á 61. mínútu. Stigið í kvöld nægði Barcelona til að komast aftur á toppinn í spænsku deildinni þar sem liðið hefur 38 stig líkt og Sevilla og Real Madrid - en hefur betri markatölu.