Erlent

Hákarinn spýtti honum út úr sér

Rúmlega fertugur kafari liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Ástralíu eftir að þriggja metra langur hvíthákarl réðst á hann undan austurströnd landsins í morgun. Hákarlinn beit um búk og síðan höfuð mannsins. Honum tókst með snarræði að pota í auga hákarlsins sem spýtti honum þá út úr sér.

Eric Nerhus er fjörutíu og eins árs kafari. Hann var að kafa eftir sæsniglum undan Howe-höfða nærri bænum Eden í Austur-Ástralíu í morgun. Eden er um fjögur hundruð kílómetra suður af Sydney. Nerhus átti sér einskis ills von þegar þriggja metra hvíthákarl réðst á hann og beit um hann miðjan og síðan um höfuðið.

Jim Hinckley, lögreglumaður, segir að svo virðist sem hákarlinn hafi náð manninum öllum upp í sig og bitið hann. Kafarinn hafi síðan náð að pota í auga hákarlsins og hann hafi á endanum spýtt honum út úr sér.

Sonur Nerhus dró hann á land. Hann segir að faðir sinn hafi komið upp á yfirborðið, kallað á hjálp og sagt hákarl nærri sér. Sonur hans sá þá mikinn blóðpoll við hlið föður síns og togað hann upp úr vatninu.

Reese Warren, sjúkraflutningamður, segir Nerhus hafa verið þakinn bitförum á brjóstkassa og baki. Nerhus var þegar fluttur á sjúkrahúsið í Eden með þyrlu. Þar liggur hann nú alvarlega slasaður en þó ekki talinn í lífshættu.

Hvergi í heiminum er meira um árásir hákarla en við strendur Ástralíu. Sérfræðingar segja þær að meðaltali 15 á ári og aðeins ein þeirra dregur fórnarlambið til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×