Erlent

Sjálfhjálparhvötin sterkust

Pumpkin var ánægður að komast til síns heima.
Pumpkin var ánægður að komast til síns heima. MYND/AP
Engin hvöt er sterkari í dýrum jarðarinnar en að reyna að halda sér á lífi hvað sem það kostar. Þrjú nýleg dæmi af jafnmörgum ferfætlingum sýna okkur það.

Fresskötturinn Pumpkin er óðum að hressast eftir þrjár vikur án matar og vatns í farangursrými flugvéla. Eigendur hans sendu hann til Lundúna frá München í Þýskalandi og þaðan átti hann að fara í tengiflug til Washington. Einhvers staðar á leiðinni týndist kisi hins vegar og fannst ekki aftur fyrr en á miðvikudaginn. Þá var hann í Denver í Colorado, glorhungraður en malandi glaður.



Fjarskyldur ættingi hans á Indlandi, stór en horaður hlébarði, var ekki eins heppinn. Þorpsbúar í Kasmír-héraði eltu hann uppi í vikunni og drápu svo á hrottafenginn hátt. Dýrið hafði bitið tvo drengi í þorpinu og því hlaut það þessi örlög.

Í gær slapp hins vegar þessi hreindýrskálfur ótrúlega vel þegar hann festi afturlappirnar í vök á ísilögðu vatni í Oklahoma í Bandaríkjunum. Eftir mikið erfiði náði hann að krafla sig upp úr vökinni og skipti svo engum togum að vindurinn feykti honum upp á land. Með fast land undir fótum var hann fljótur að hlaupa inn í skóginn sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×