Innlent

Sátu fyrir innbrotsþjófum

Tveir menn sátu fyrir innbrotsþjófum á heimili föður síns í morgun og leiddi fyrirsátið til handtöku þeirra. Þetta var þriðja ferð innbrotsþjófa í húsið, frá því um jólin, en þeir höfðu stillt upp þýfi í anddyrinu sem beið þess að vera sótt.

Kristinn Kristinsson sem dvelur nú á Kanaríeyjum þar sem hann eyddi jólunum fékk heldur óskemmtilegar fréttir í jólafríinu því innbrotsþjófar hafa látið greipar sópa á heimili hans. Synir Kristins uppgötvuðu þjófnaðinn.

Fyrst var brotist inn í kringum jólin svo aftur í gær og í gærkvöldi komu þjófarnir að nýju en fældust frá þegar þeir sáu konuna í næsta húsi vinna í eldhúsinu. Svo klukkan tíu í morgun komu þjófarnir inn um ólæstar útidyrnar en þeir höfðu farið inn um glugga daginn áður og meðal annars tekið úr lás. Annar bræðranna beið í forstofunni og skellti hurðinni á móti þjófunum og þeir tókust á. Þjófarnir náðu að rífa sig lausa en frelsið höfðu þeir ekki lengi þar sem lögreglan náði þeim skömmu síðar.

Lögreglan vissi fyrirfram hvað þeir Júlíus og Eyjólfur hyggðust fyrir og var í viðbragðsstöðu.

Eyjólfur kannaðist við einn innbrotsþjófanna og gat gefið lögreglu greinagóða lýsingu en að auki skyldu þjófarnir eftir bíl fyrir utan húsið með yfirhöfnum og persónulegum eigum. Bræðurnir sögðust ekki hafa verið smeykir á vaktinni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×