Innlent

Fíkniefnin í flotholtum

Fimm manns sem taldir eru tengjast smyglskútumálinu með einum eða öðrum hætti sitja nú inni.
Fimm manns sem taldir eru tengjast smyglskútumálinu með einum eða öðrum hætti sitja nú inni. MYND/Einar
Hluti fíkniefnanna sem lögregla lagði hald á í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn að morgni fimmtudagsins 20. september var falinn í flotholtum um borð í skútunni sem notuð var til smyglsins, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Hinn hluti efnanna var í töskum um borð.

Lögreglan lagði hald á um 40 kíló af fíkniefnum um borð í skútunni. Um var að ræða 14 kíló af e-töfludufti, tæp 24 kíló af amfet­amíni og 1.800 e-töflur.

Flotholt eins og um ræðir eru notuð til að setja milli skips og bryggju þegar skipið leggst að. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins voru umrædd flotholt þó um borð þegar lögreglan lagði hald á efnin, eins og áður sagði.

Í gær rann út gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna af tveimur sem handteknir voru á höfuðborgarsvæðinu sama dag og fíkniefnin á Fáskrúðsfirði voru haldlögð, en hann hefur jafnframt verið í einangrunarvist.

Hann var úrskurðaður í Héraðsdómi Reykja­víkur í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. nóvember. Jafnframt mun hann sitja í einangrun til þess tíma vegna rannsóknarhagsmuna.

Fjórir aðrir sitja inni vegna málsins. Einn þeirra fór beint úr gæsluvarðhaldi í afplánun. Annar situr í gæsluvarðhaldi til 29. nóvember og tveir til viðbótar sitja í gæsluvarðhaldi til 8. nóvember.

Rannsókn málsins hefur miðað vel, að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×