Innlent

Metrennsli í Norðurá

Í Borgarfirði hafa ár flætt yfir bakka sína og gamla brúin yfir Hvítá, milli Ferjukots og Hvítarvalla, er lokuð og íbúar í Ferjukoti því innlyksa.

Norðurá flæddi yfir veginn á þremur stöðum efst í Norðurárdál og loka þurfti fyrir umferð um Holtavöruheiði frá klukkan níu í gærkvöldi til klukkan sex í morgun og var umferð beint um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Áin fór yfir veginn við Klettastíu, Hreinsstaði og Kattarhryggi. Vatnsrennsli í Norðurá var í hámarki í morgun þegar það mældist 780 rúmetrar á sekúndu en það hefur ekki mælst meira síðan mælir var settur þar upp árið 1970.

Hvítá í Borgarfirði hefur tekið í sundur veginn við Ferjukot og er gamla brúin yfir ánna lokuð og eru íbúar þar innlyksa. Norðurá rennur í Hvítá talsvert fyrir ofan Ferjukot og vatnsmagnið því mikið en rennslið í Hvítá hefur á síðustu klukkutímum verið um fjögur hundruð rúmmetrar á sekúndu. Þorkell Fjeldsted bóndi í Ferjukoti segir flóðið í ánni það mesta í fimmtán ár. Áin fór yfir bakka sína þannig að vatn flæddi inn í kjallara gamla íbúðarhússins í Ferjukoti og komu menn frá björgunarsveitinni Brák í Borgarfirði með vatnsdælu á gúmmíbát svo hægt væri að dæla vatninu út. Þorkell kemst hvergi og veit ekki hvenær fært verður um veginn. Hann segir það þó litlu breyta þar sem hann hafi ekki átt neitt erindi frá bænum sem verður gjarnan innlyksa í flóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×