Innlent

Ungir ökumenn orsaka fjölda banaslysa

Ungir ökumenn eiga stóran þátt í alvarlegustu umferðarslysunum sem orðið hafa á þessu ári. Upplýsingafulltrúi Umferðarstofu kallar eftir ábyrgð foreldra í þessum efnum.

Þrjátíu manns á aldrinum fimm til áttatíu og átta ára hafa látist í 27 umferðarslysum það sem af er árinu 2006. Þetta er mesti fjöldi banaslysa síðan árið 2000 þegar 32 létust.

Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu segir þar á bæ hafi menn ekki séð eins mikið um að orsök umferðarslysa sé einfaldlega leikaraskapur.

Einar vill taka fram að ekkert liggur fyrir um orsök banaslyssins sem varð í gær.

Áhættuhegðun á stóran þátt í mörgum banaslysum á árinu, en það vekur athygli að í sjö tilfellum voru bílbelti ekki notuð.

Þrátt fyrir að notkun öryggisbelta hafi aukist á undanförnum árum segir Einar skort á notkun öryggisbelta vera einn stærsta orsakavald í alvarlegum umferðarslysum. Hann leggur áherslu á að hvort um sé að ræða stuttar eða langar vegalengdir, í fram eða aftursæti, séu þeir sem ekki noti bílbelti í margfalt meiri lífshættu, en aðrir í umferðinni.

Ísland er í hópi þeirra landa þar sem mest jákvæð þróun hefur átt sér stað í umferðaröryggismálum á síðustu fimm árum. Einar segir að sveiflan á árinu valdi þess vegna miklum vonbrigðum.

Einar segir unga ökumenn eiga mjög stóran þátt í alvarlegustu umferðarslysunum á þessu ári, og það verði að skoða alvarlega. Hann kallar eftir ábyrgð foreldra í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×