Innlent

Óttuðust stórslys

Hluta miðbæjarins í Vestmannaeyjum var lokað í gærkvöld þegar eldur kviknaði í Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins. Ediksýra í tonnavís var geymd í húsinu og óttuðust menn mjög að stórslys hlytist af.

Slökkviliðið í Eyjum barðist við eldinn í um tvær klukkustundir, hafði betur og réði niðurlögum hans um klukkan tíu í gærkvöld. Fjögur tonn af ediksýru sem notuð er sem rotvörn við matvælavinnslu var geymd í þúsund lítra opnum körum í húsnæðinu. Eldurinn logaði allt um kring og því kapp lagt á að koma sýrunni í held ílát.

Sex eiturefnakafarar frá Slökkviliðinu í Reykjavík voru sendir til Eyja með þyrlu Landhelgisgæslunnar og voru að fram á nótt. Veður var gott í Vestmannaeyjum í gærkvöld, reykurinn barst út yfir hraun en ekki íbúðabyggð svo fólki stafaði ekki hætta af.

Ragnar Þór Baldvinsson, slökkviliðsstjóri í Vestmannaeyjum, segir að lóðsinn hafi verið gerður klár og ráðstafanir gerðar til að nota hann ef eitthvað gerðist á hafnarsvæðinu.

Það tókst að bjarga vinnslubúnaði verksmiðjunnar en tjónið mun þó vera töluvert. Hörður Óskarsson, fjármálastjóri Ísfélagsins, segir þetta ekki hafa áhrif á rekstur og áfram verði hægt að taka við hráefni.

Ískyggilega margt bendir til þess að kveikt hafi verið í af ásettu ráði en rannsókn bendir til að eldurinn hafi komið upp á að minnsta kosti tveimur stöðum í gamalli síldarþró þar sem nægur var eldmaturinn, enda var hún notuð sem geymsla fyrir fiskikör úr plasti.

Það minnir óneitanlega á stóra brunann sem varð þann 9. desember í fiskvinnsluhúsi Ísfélagins árið 2000, en eldsupptök þar voru einni rakin til karageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×