Innlent

Ástarbréf íslenskra kvenna á safn

Ástarbréf íslenskra kvenna til eina skipverja franska rannsóknarskipsins Pourquois-pas sem komst lífs af þegar skipið strandaði út af Reykjanesi árið 1936, verða að öllum líkindum afhent Íslendingum með vorinu. Frændi skipverjans, sem nú er látinn, er staddur hér á landi.

Olivier Le Bihan er mikilsvirtur safnstjóri í Frakklandi, en hann stjórnar fagurlistasafninu í Bordeaux. Hann er frændi eina skipverjans sem komst lífs af úr strandi Pourquois-pas, Jean Le Gunnileg. Olivier er kominn hingað til lands sem sýningarstjóri Frelsun litarins sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands, þar sem ómetanleg verk franskra snillinga á borð við Matisse og Renoir eru til sýnis. Hann segist vera sérstaklega ánægður að heimsækja Ísland vegna þess hversu mikil áhrif skipstrandið hafði á frænda hans, sem hætti siglingum eftir strandið. Jean Le Gunnileg sem var frá Bretagniu í Frakklandi naut þess þó að vera hér á landi eftir strandið og kynnst íslendingum vel.

Olivier segir að eftir fráfall Jeans hafi komið í ljós ástarbréf frá íslenskum konum. Bréfin eru varðveitt af fjölskyldunni, en stefnt er að því að afhenda þau safni hér á landi í vor.

Sýningin frelsun litarins markar upphaf frönsku menningarhátíðarinnar Porquois pas? í Reykjavík. Það er því von á íslensku ástarívafi undir lok hátíðarinnar í maí.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×