Innlent

Flugumferð gæti lamast við Ísland

Allt stefnir í að flug lamist hér á landi og á milli landa um áramót, en flugumferðarstjórar undirrituðu ekki samninga við Flugstoð sem tekur við íslenska flugstjórnarsvæðinu um áramótin. Útlitið er afar slæmt, segir formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, en deilt hefur verið um lífeyrismál.

Frestur til að sækja um störf flugumferðarstjóra hjá hinu nýja opinbera hlutafélagi rann út 30. nóvember, og sendu Flugstoðir síðan ítrekunarbréf fyrr í vikunni þar sem flugumferðarstjórum er gefinn frestur til dagsins í dag til að sækja um, ella hafi félagið engar skuldbindingar gagnvart viðkomandi aðila. Loftur Jóhannsson formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra segir bréfið hafa farið illa í flugumferðarstjóra, en Flugstoðir bjóði verulega skerðingu á lífeyrisréttindum og vilji ekki semja um annað.

Ólafur Sveinsson formaður Flugstoða segir að vilji hafi verið til að koma til móts við flugumferðarstjóra, en hins vegar hafi ekki verið hægt að ganga að kröfum þeirra um launahækkanir sem Ólafur segir nema milli 30 og 40%.

Loftur undrast þessar aðferðir þar sem aðalrök fyrir tilurð Flugstoða hafi verið þau að stuðla að sterkari stöðu íslendinga vegna samkeppni við Breta og Kanadamenn um flugstjórnarsvæði. "Mér finnst það ansi skrýtin taktík að byrja á því að reka allt starfsfólkið og leggja síðan niður starfsemina."

Íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt hið stærsta í heimi og má búast við gríðarlegri röskun á öllu farþegaflugi innanlands, sem utan, takist ekki að manna stöðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×