Innlent

Nýr miðbær í Garðabæ

Nýr miðbæjarkjarni verður byggður í Garðabæ á næstu þremur til fjórum árum. Breytingarnar eru stórfelldar, hluti af Garðatorgi verður rifinn og mun verkið kosta sjö til átta milljarða.

Samningurinn um breytingu á miðbæjarskipulagi Garðabæjar var undirritaður í dag á Garðatorgi. Það er fasteignaþróunarfélagið Klasi sem mun að mestu fjármagna uppbygginguna, en bærinn mun eiga og reka bílakjallara sem verður undir torginu. Helstu breytingar eru þær að Hagkaup og bensínstöðin flytja að Hafnarfjarðarvegi.

Garðatorg heldur áfram sínu hlutverki sem miðbæjarkjarni með verslun og ýmis konar þjónustu, en í stað hússins þar sem Hagkaup er nú, verður byggt þriggja hæða hús með risi sem myndar hring umhverfis Garðatorg með bílakjallara undir torginu. Um 200 íbúðir verða byggðar á hinu nýja Garðatorgi.

Hönnunarsafn Íslands verði einnig á Garðatorgi og mun það skapa mikilvægan sess af heildarmynd svæðisins.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segir bæjarbúa ekki hafa verið nógu ánægða með miðbæinn þar sem ýmislegt hafi vantað, eins og veitingastaði. Nú gefist hins vegar tækifæri til að skipuleggja miðbæinn frá A-Ö.

Ráðist verður í uppbygginguna strax á nýju ári og lýkur framkvæmdum árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×