Innlent

Athugasemd gerð við innihald vefsíðu

Verkfræðinemi, sem birti ítarlegan leiðarvísi á íslensku um sprengjugerð og kveikibúnað á háskólavefsíðu sinni, skrifaði leiðbeiningarnar ekki sjálfur heldur fann þær við heimildaöflun á vefnum. Forseti verkfræðideildar hafði samband við nemann í dag og gerði athugasemd við innihald síðunnar.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að leiðarvísirinn hefði verið öllum aðgengilegur á háskólavefsvæði verkfræðinemans. Hann hafi svo verið tekinn af vefnum eftir að fréttamaður ræddi við nemann.

Eftirlit er haft með því að engar óviðurkvæmilegar upplýsingar séu birtar á þeim vefsvæðum sem nemendum við Háskóla Íslands er úthlutað við upphaf náms. Þeim sé frjálst að birta það sem þeir vilji ar en það þýði þó ekki að allt sé leyfilegt.

Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar Háskólans, segist sjaldan hafa þurft að gera athugasemdir við innihald á síðum nemenda sinna síðustu fimm árin, í mesta lagi tvisvar eða þrisvar. Í þetta sinn hafi hann þó hringt í viðkomandi nemanda og bent honum á að þetta hafi ekki verið við hæfi. Hann hafi beðist afsökunar. Sigurður segir að af hans hálfu verði engir eftirmál af þessu.

Fréttastofa fékk þær upplýsingar frá nemandanum að hann hafi ekki skrifað leiðbeiningarnar sjálfur heldur fundið þær við heimildaöflun vegna efnafræðiáfanga. Hann hafi afráðið að birta þær en síðan fjarlægt af netinu í gær. Hann hafi reynt að finna upprunalegu birtingarsíðuna á netinu í gær en ekki fundið hana aftur. Við leit sína hafi hann veitt því athygli að upplýsingarnar væri nú að finna á ýmsum bloggsíðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×