Innlent

220 milljónir í skólamáltíðir í Afríku

Íslenska ríkið ætlar að leggja fram 220 milljónir króna næstu tvö árin til kaupa á skólamáltíðum fyrir grunnskólabörn í Úganda og Malaví. Það verður hluti af átaki Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem gengur undir nafninu "Málsverður á menntavegi".

Verkefnið ber heitið "Börn styðja börn". Sérhvert grunnskólabarn á Íslandi styrkir eitt grunnskólabarn í Afríkuríkjunum tveimur um skólamáltíð alla skóladaga ársins næstu tvö árin. Um 45 þúsund grunnskólabörn eru á Íslandi og verða jafnmörg grunnskólabörn studd í Afríkuríkjunum tveimur.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir þetta afar mikilvægt verkefni. Framlagið nemi tvö hundruð og tuttugu milljónum króna og peningarnir fari þar sem þeirra sé þörf. Með þessu sé Ísland einnig komið í hóp þeirra 5 ríkja sem leggi mest fram til Matvælaðstoðarinnar miðað við höfðatölu.

Mikael Bjerrum, fulltrúi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, segir heildarátakið hafa hjálpað rúmlega tuttugu milljón börnum í sjötíu og fjórum löndum á síðasta ári. Matvælaáætlunin muni nota peningana frá Íslandi til að kaupa hollan mat handa skólabörnum í Malaví og Úganda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×