Innlent

Kosningabaráttan hafin

Síðasti þingfundur Alþingis fyrir jólaleyfi leystist upp í kosningafund á lokasprettinum og kallaði formaður Samfylkingarinnar ríkisstjórnina einhverja skæðustu frjálshyggjustjórn Vesturlanda. Þingmaður Framsóknarflokksins sagði þvert á móti að ríkisstjórnin væri velferðarstjórn sem bætt hefði hag allra landsmanna.

Það eru fimm mánuðir til kosninga og þingfundur í gær bar þess merki. Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar tókust á um skattabreytingar og hverjum þær kæmu helst til góða.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að fimm mánuðum fyrir kosningar, eftir 12 ára setu þá ákveði ríkisstjórnin að taka sig saman í andlitinu. "Þessi ríkisstjórn sem er mesta hægristjórn sem hér hefur setið, frjálshyggjustjórn sem er í hópi þeirra skæðustu sem setið hafa á Vesturlöndum."

Sæunn Stefánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins var ekki sátt við þessa lýsingu. "Ef við förum yfir verkefni þessarar ríkisstjórnar frá 1998 þá er það nú þannig að okkur hefur tekist að auka hér útgjöld til heilbrigðismála að raungildi um 50%, til félagsmála og almannatrygginga um 45%, til menntamála um 60% og háskólastigsins eins og sér 80%. Að þessu leyti má segja að þetta hafi verið velferðarstjórn."

Og Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna var líka kominn í kosningaham. "Það er rangt hjá þeim sem eru hingað komnir til að monta sig af skattalækkanapólitík að þeir standi fyrir þau gildi sem við gerum í Vinstri hreyfingunni grænu framboði."

Pétur Blöndal lýsti ánægju sinni með verk stjórnarinnar. "Hæstvirt ríkisstjórn hefur með risaskrefum afnumið skatta á síðasta kjörtímabili. Ég minni á afnám eignaskatta, lækkun tekjuskatta, lækkun skatta á hagnað fyrirtækja, erfðafjárskattinn og svo framvegis."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×