Innlent

Gengu gegn ofbeldi

16 ungir karlmenn gengu niður Laugaveginn í dag til að hvetja karlmenn til að taka afstöðu gegn ofbeldi gegn konum. Einhverjum var misboðið vegna þessa framferðis og kallaði til lögreglu.

Gangan var liður í 16 daga átaki V-samtakanna gegn ofbeldi gegn konum en síðasti dagur átaksins er á morgun. Karlmennirnir sem gengu niður Laugarveginn stöðvuðu kynbræður sína og ræddu við þá og hvöttu til að taka afstöðu til málsins.

Björn Ingi Hilmarsson, forsvarsmaður hópsins segir að þar sem karlmenn beri ábyrgð á 97 prósent ofbeldisverka þá sé ekki stætt á því að konur standi einar í baráttu sinni. Karlarnir fengu góðar viðtökur frá flestum og segir Björn Ingi að þegar málið sé skýrt út fyrir mönnum þá sjái flestir hversu mikilvægt það sé að taka afstöðu gegn ofbeldi gegn konum.

Ekki voru þó allir sáttir við framgöngu karlanna því kallað var til lögreglu sem sagði í samtali við fréttastofu hafa fengið kvörtun vegna hávaða og að einhverjum hafi þótt blygðunarkennd sinni misboðið. Lögreglan spjallaði lítillega við karlahópinn og þegar hún hafði kynnt sér hvers kyns var hvarf hún og braut og lét piltana óáreitta.

Haldið hefur verið upp á V-daginn um allan heim síðustu ár en V-dagssamtökin voru stofnuð í New York árið 1998. Hér á landi voru samtökin stofnuð árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×