Innlent

Vilja taka yfir skipulagsmál á varnarsvæðinu

Bæjarstjórar sveitarfélaganna sem eiga land á varnarsvæðinu fyrrverandi á Miðnesheiði vilja fá skipulagsréttinn fyrir svæðið til sín og það helst strax í næstu viku.

Þar sem varnarliðið er farið finnst bæjarstjórum Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs tími til að svæðið fari undir íslensk stjórnsýslulög. Þannig hafa sveitarfélögin þrjú skipað sameiginlega skipulagsnefnd til að sjá um skipulag á svæðinu til framtíðar. Skipulagsnefnd á vegum utanríkisráðuneytisins hefur haft með skipulagið gera vegna veru Bandaríkjamanna en þeir eru farnir og nú vilja Suðnesjamenn taka við.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um ráðstafanir um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn skipulagsmála á varnarsvæðinu eða þar til forsætisráðherra auglýsir breytingu þar á. Bæjarstjórarnir segja því óþarfa að breyta frumvarpinu heldur vilja auglýsingu forsætisráðherra þegar frumvarpið hefur fengið afgreiðslu á þingi. Og þeir vilja hafa eitthvað með skipulagsmáli að segja sem fyrst helst í næstu viku.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×