Enski boltinn

Drogba ætlar að verða bestur á Englandi

Drogba segist aldrei hafa verið í betra formi.
Drogba segist aldrei hafa verið í betra formi. MYND/AFP

Didier Drogba, framherji Chelsea, skortir ekki sjálfstraust. Í dag lýsti hann því yfir að markmið hans á tímabilinu væri að verða besti framherji Bretlandseyja. Drogba, sem spilað hefur frábærlega það sem af er leiktíð, segist enn eiga mikið inni.

“Mitt markmið er að nýta öll færin sem ég fæ og skora þannig fullt af mörkum. Í lok tímabilsins vil ég verða talinn besti leikmaður landsins. Ég er að spila vel og í besta formi sem ég hef nokkurn tíma verið í en ég hef ekki ennþá sýnt mitt besta. Ég ætla mér að verða ómetanlegur inn í vítateig andstæðinganna,” sagði Drogba við enska fjölmiðla í dag.

Drogba skrifaði nýverið undir nýjan fjögurra ára samning við Chelsea, en á tímabili í sumar leit út fyrir að hann væri á förum frá félaginu. Drogba hefur þakkað traustið með því að skyggja algjörlega á Andrei Shevchenko, sem kom til Chelsea í sumar fyrir 30 milljónir punda.

“Ég velti því oft fyrir mér að róa á ný mið, en ég er stríðsmaður að eðlisfari sem vill ekki gefast upp og það kom því ekki til greina. Ég vill gleyma síðasta tímabili því þá náði ég mér ekki almennilega á strik, en nú ætla ég að sýna hvað ég get,” sagði Drogba og bætti því að lokum við að hann yrði sannfærður um að Chelsea yrðu meistarar þriðja árið í röð. “Ég veit að við vinnum aftur,” sagði hann án þess að blikka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×