Innlent

Gamli hafnarbakkinn í Reykjavík grafinn upp

Nú er verið að grafa fram gamla hafnarbakkann sem var bak við hús Rammagerðarinnar í Hafnarstræti, en minjarnar sem þar eru munu meðal annars víkja fyrir byggingu tónlistarhúss.

Mikið af sýnilegum hleðslum hafa komið fram við uppgröftinn, en mestmegnis eru þetta kjallarar undan pakkhúsum kaupmanna sem stóðu við hafnarbakkann.

Þarna stóðu stóðu áður pakkhús og bryggjuhús kaupmanna og eru minjarnar sérstaklega áhugaverðar þar sem byggðin sem sést á þessum myndum markaði upphaf að borgarþróun í Reykjavík sem byggði á sjávarútvegi.

Oddgeir Hansson sagnfræðingur segir ýmislegt lauslegt hafa fundist til dæmis kolasalla, leifar af verkfærum og gamla bobbinga. Þá fannst kjálkabein sem hafði verið notað til að hræra upp steypu.

Oddgeir segir uppgröftinn breyta sýn þeirra á hvað teljist til fornleifa, áherslan hafi meira verið á miðaldir á kostnað minja síðari tíma. Hann telur hugtakið fornleifafræði of merkingarfullt fyrir þennan uppgröft, frekar ætti að nefna þetta mannvistarleifafræði.

Oddgeir segir sögu íslendinga ekki það langa, þess vegna sé mikilvægt að varðveita minjarnar þótt þær séu ekki gamlar og fólk muni jafnvel eftir þeim.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×