Innlent

Stjórnmálamenn fá haturspóst

Fjöldi stjórnmálamanna, meðal annars frambjóðendur í prófkjöri vinstri grænna, hefur að undanförnu fengið nafnlaus bréf þar sem óhróðri er ausið yfir múslima. Nokkrir hafa sent lögreglu bréfin til rannsóknar.



Þessi einkennilegu bréf tóku að berast inn um bréfalúgur fólks undir lok vikunnar sem helst virðist eiga það sameiginlegt að tengjast stjórnmálum og að hafa haldið fram málstað innflytjenda í þjóðmálaumræðu undanfarinna vikna. Bréfið er fjórtán síður að lengd og er allur þorri þess lagður undir harkalega gagnrýni á múslima og íslamska trú, bæði í máli og myndum. Engin undirskrift fylgir bréfinu, að öðru leyti en því að neðst í því er letrað "Group 1627". Virðist þar vísað til Tyrkjaránsins sem var framið það ár.

Flestir þáttakenda í prófkjöri Vinstri grænna fengu bréfið en enginn þeirra vildi tjá sig um það í dag. Sumir sögðust hafa hent því án þess að lesa það en munu hafa sent það til lögreglu. Formanni félags stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands var einnig sent bréfið og honum brá talsvert í brún þegar hann las það. Hann segist ætla að fara að fordæmi fólks sem hann þekkir og hefur fengið bréfið sent og afhenda það lögreglu til rannsóknar.

Í hegningarlögum er kveðið á um að hver sem smáni trúarkenningar löglegs trúfélags skuli sæta sektum eða fangelsi en óvíst er hvort umrætt bréf falli undir þau ákvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×