Innlent

Á sjöundu milljón króna í biðlaun

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri fær á sjöundu milljón króna í biðlaun þegar hann lætur sjálfviljugur af embætti um áramót. Oddviti L-listanns í bæjarstjórn sakar bæjarstjórann fráfarandi um fullkomið siðleysi.

Um áramótin hættir Kristján Þór Júlíusson sem bæjarstjóri á Akureyri. Hann snýr sér að þingstörfum í vor fyrir Sjálfstæðisflokkinn en í millitíðinni tekur hann sex mánaða biðlaun samkvæmt ákvæði í ráðningarsamningi eða frá níunda janúar næstkomandi fram til níunda júlí. Alls nema biðlaunin á sjöundu milljón, þar sem mánaðarlaun Kristjáns Þórs eru rúm milljón á mánuði.

Oddur Helgi Halldórsson, oddviti L-listans sem situr í minnihuta bæjarstjórnar á Akureyri, segir það fullkomið siðleysi að bæjarstjórinn hyggist nýta sér biðlaunaréttinn. Hann segir biðlaunaákvæðið fyrst og fremst eiga við um þær kringumstæður ef bæjarstjórum sé sagt upp vegna pólitískra breytinga, sem þeir ráði ekki sjálfir.

Hann segist ætla að veita meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar aðhald þegar kemur að ráðningarsamningi þeirra tveggja bæjarstjóra sem ríkja munu síðar á kjörtímabilinu samkvæmt samningi meirihlutaflokkanna.

Kristján Þór neitar að nokkuð sé athugavert við að hann fái biðlaunin. Kjörin séu hluti af ráðningarsamningi sem gerður hafi verið með samþykki bæjarstjórnar. Hann segir að alltaf verði til einhverjir sem gagnrýni svona mál og hleypi þeim upp í því skyni að auka persónulegar vinsældir sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×