Enski boltinn

Henry ekki tilnefndur sem knattspyrnumaður ársins

Thierry Henry er ekki vinsæll í kjöri knattspyrnumanns ársins að þessu sinni
Thierry Henry er ekki vinsæll í kjöri knattspyrnumanns ársins að þessu sinni NordicPhotos/GettyImages

Alþjóða knattspyrnusambandið gaf í dag út hvaða þrír menn eru tilnefndir sem knattspyrnumenn ársins hjá FIFA. Athygli vekur að framherjinn Thierry Henry hjá Arsenal er ekki á listanum að þessu sinni, en hann skipa nýkjörinn knattspyrnumaður Evrópu, Fabio Cannavaro frá Ítalíu og þeir Ronaldinho og Zinedine Zidane.

Zidane hefur þrisvar verið kjörinn knattspyrnumaður ársins hjá FIFA og Ronaldinho er núverandi handhafi verðlaunanna. Cannavaro er nýkjörinn knattspyrnumaður Evrópu og þykir allt eins líklegur til að hreppa verðlaunin að þessu sinni.

Það vekur nokkra athygli að Henry skuli ekki vera tilnefndur, en hann lék til úrslita bæði í Meistaradeildinni og á HM á árinu - auk þess að vera valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar og þá var hann markahæstur í úrvalsdeildinni og næst markahæstur í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×