Innlent

Gæði íss ófullnægjandi í 62 prósentum tilvika

Örverufræðileg gæði íss úr vél voru ófullnægjandi hjá 62 prósentum fyrirtækja samkvæmt könnun sem gerð var á vegum matvælaeftirlits umhverfissviðs Reykjavíkur. 22 prósent fyrirtækja voru með fullnægjandi niðurstöður og 16 prósent fengu senda athugasemd.

Fram kemur á vef umhverfissviðs að alls hafi verið tekin 106 íssýni á 55 sölustöðum í Reykjavík ásamt því sem aðbúnaður á sölustöðum var kannaður. Víðast hvar var aðbúnaður sölustaða góður, ísvélar voru víðast hvar þrifnar einu sinni í viku og hitastig var í flestum tilfellum í lagi.

Hins vegar er haft eftir Berglindi Guðmundsdóttur, sem hafði umsjón með rannsókninni að helstu ástæður ófullnægjandi niðurstaðna hafi verið of hár heildargerlafjöldi og of hár fjöldi kólígerla. Það megi líklega skýra með ófullnægjandi þrifum og handþvotti ásamt rangri notkun hanska, of háu hitastig iog að of sjaldan sé skipt um aukahluti í ísvélum.

Enn fremur kemur fram hjá umhverfissviði að færri fyrirtæki en áður uppfylli núgildandi kröfur um örverufræðileg gæði íss úr vél. Nauðsynlegt sé að veita aðhald á þessum markaði með frekari sýnatökum og eftirfylgni með þeim næstu misserin. Ekki er vitað til þess að fólk hafi veikst af því að borða ís úr þessum vélum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×