Innlent

50 þúsund króna bætur vegna hlerana

Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. MYNDÁgúst Heiðar

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær íslenska ríkið til að greiða karlmanni 50 þúsund krónur í miskabætur vegna þess að sími hans var hleraður í tvær vikur í tengslum við bruna á Sauðárkróki fyrir tveimur árum.

Einn maður lést í brunanum og var sá sem stefndi ríkinu grunaður um aðild að brunanum og dauða mannsins. Lögregla fór í framhaldinu fram á það við dómstóla að Síminn léti henni í té upplýsingar um símtöl úr og í símanúmer í eigu mannsins daginn sem bruninn varð ásamt því að fá að hlera símtöl mannsins í tvær vikur. Hvort tveggja var heimilað með dómsúrskurði en engin ákæra var gefin út í málinu.

Maðurinn fór í framhaldinu fram á 500 þúsund króna miskabætur vegna hlerunarinnar og þess að fjallað hefði verið um það í fjölmiðlum að hann væri grunaður um að hafa valdið dauða þess sem fórst í brunanum. Þetta hefði stuðlað að andlegum þjáningum mannsins.

Dómurinn komst að því að hleranirnar hefðu falið í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs mannsins og var fallist á það með honum að aðgerðir lögreglu hefðu falið í sér ólögmæta meingerð. Hins vegar hefði maðurinn ekki sýnt fram á lögreglumenn hefðu átt frumkvæði að umfjöllun fjölmiðla um brunann í húsinu. Voru honum því aðeins dæmdar bætur vegna þess miska sem fólst í skerðingu á einkalífi hans með hlerununum, samtals 50 þúsund krónur. 500 þúsund króna gjafsóknarkostnaður í málinu var greiddur úr ríkissjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×