Innlent

Vaxtarverkir í skattkerfinu

Skattalögum þarf að breyta svo að fyrirtæki standi klár á því hver beri ábyrgð á sköttum og lífeyrissjóðsgreiðslum erlendra starfsmanna, segir forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. Hann segir vaxtaverki í skattkerfinu.

Vinnuafl - hagur allra var yfirskrift fundar Viðskiptaráðs og Deloitte í morgun þar sem meðal annars var rætt um að skattalög þurfi að vera skýr fyrir fyrirtæki. Svo er ekki í dag, segir Páll Jóhannesson, forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. „Þau eiga ekki að lenda í skoðun skattayfirvalda eða hugsanlegri skattlagninu eftir á. Annaðhvort eiga þau að geta gengið að regluverkinu skýru eða geta fengið skjót svör frá skattayfirvöldum um hvað þau eigi að gera.“

Því þarf að breyta lögum um skatta og lífeyrissjóði svo ljóst sé hver beri ábyrgð á því að greiða skatta og í lífeyrissjóð af tekjum starfsfólks frá starfsmannaleigum og erlendum fyrirtækjum. Þá stendur upp á skattayfirvöld, segir Páll, að móta sér álit út frá núgildandi lagaramma - svo fyrirtæki lendi ekki í eftirásköttun. „Að minnsta kosti þannig að þau þurfi ekki að bíða eftir svörum í marga mánuði um hvaða skoðun þau hafa á óskýru regluverkinu.“

Á fundinum ræddi Jóhanna Waagfjörð, framkvæmdastjóri Haga, um mikilvægi erlends vinnuafls fyrir atvinnulífið. Í sumum fyrirtækjum Haga eru allt að sextíu prósent starfsmanna útlensk og hefu verið að færast meira í afgreiðslu, til dæmis í Bónus, þar sem voru tveir í fyrra en eru fjörutíu núna. Og reynslan er góð. „Þetta er gríðarlega duglegt fólk sem er komið hingað til að vinna og við erum í alla staði mjög ánægð með þetta erlenda starfsfólk sem vinnur hjá okkur.“

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×