Innlent

Óformlegar viðræður í bígerð

Óformlegar viðræður um varnarsamstarf við nágrannaríkin munu fara fram á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, sem hefst á morgun.

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir fagnaðarefni að Norðmenn hafi áhuga á að liðsinna Íslendingum en gagnrýnir ríkisstjórnina um leið fyrir framtaksleysi.

Leiðtogafundurinn er haldinn í Ríga, höfuðborg Lettlands, en hann sækja allir forsetar og forsætisráðherrar aðildarríkjanna 26. Ástandið í Afganistan, þar sem 32.000 hermenn á vegum NATO hafa átt verulega á brattann að sækja að undanförnu, verður án efa aðalumræðuefnið á fundinum en önnur mál mun vissulega bera á góma. Fulltrúar Íslands, þau Geir H. Haarde forsætisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, ætla að efna þar til óformlegra viðræðna við leiðtoga nokkurra nágrannaríkja Íslands um varnarsamstarf, meðal annars Noreg, en vitað er um áhuga þessara frænda okkar á að taka að sér eftirlit með lofthelgi Íslands. Þessi áform falla í góðan jarðveg hjá þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Össur segir að með þessu væri hægt að leysa ákveðinn hluta af öryggisþörfum Íslendinga á svipaðan hátt og hjá Eystrasaltslöndunum. Samstarf um björgunareftirlit á Norðurhöfum er sérstaklega mikilvægt í þessu samhengi vegna stóraukinna flutninga um þau hafssvæði. Spurður hvort eðlilegra væri að leita til fleiri ríkja en Noregs um samstarf segir Össur að slíkt væri óskandi, gallinn væri aðeins sá að ríkisstjórnin íslenska hefði ekki haft neitt frumkvæði að því að óska eftir slíku samstarfi, frumkvæðið hefði komið frá Norðmönnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×