Innlent

Jón H. Snorrason hættir brátt í starfi

Jón H. Snorrason hættir brátt í starfi.
Jón H. Snorrason hættir brátt í starfi. MYND/Einar

Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hættir brátt hjá embættinu. Hann tekur við starfi aðstoðarlögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt heimildum fréttastofu. Jón mætti í héraðsdóm dag fyrir hönd ríkislögreglustjóra þar sem þingfest var kæra Baugsmanna þess efnis að rannsókn embættisins á skattamálum þeirra væri ólögmæt.

Jón H. Snorrason hefur frá upphafi staðið í eldlínunni hjá embætti ríkislögreglustjóra sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu mun Jón taka við starfi aðstoðarlögreglustjóra hjá nýju embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins sem tekur til starfa um áramótin. Jón vildi ekki staðfesta þetta þegar fréttastofa náði tali af honum í dag.

Jón mætti í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag fyrir hönd ríkislögreglustjóra í máli þar sem kæra Baugsmanna var þingfest en þeir krefjast þess að rannsókn ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum þeirra verði úrskurðuð ólögmæt.

Til vara krefjast Baugsmenn þess að Haraldur Johannessen, Jóni H. Snorrasyni saksóknara og öllum starfsmönnum embættisins verði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Í kærunni eru talin upp ýmis ummæli ríkislögreglustjóra og hans manna í fjölmiðlum sem Baugsmenn vilja meina að sýni að þeir hafi fyrirfram ákveðið sakborningar séu sekir.

Jón H. Snorrason fór fram á rúmlega viku frest til þess að skila greinagerð vegna málsins og virtist það vefjast fyrir lögmönnum Baugsmanna. Eftir að lögmennirnir fengu hlé á réttarhaldinu, til að funda með Jóni í einrúmi, féllust þeir þó á að hann fengi frestinn gegn því að málflutningur yrði fljótlega eftir að greinagerð yrði skilað.

Líklegt má telja að Jón muni í næstu viku mæta fyrir hönd ríkislögreglustjóra í dómsal síðasta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×