Innlent

Fyrirtæki skylduð til samráðs við starfsmenn

Fyrirtækjum verður skylt að upplýsa starfsmenn um fjárhagsstöðu og horfur í atvinnumálum, ef frumvarp félagsmálaráðherra nær fram að ganga. Tregðist þau við, verða þau sektuð.

Frumvarpið er til komið vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu þar sem fyrirtækjum, með fimmtíu starfsmenn eða fleiri, er gert skylt að veita starfsmönnum upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækis og horfur í atvinnumálum, það er að segja hvort líklegt sé að starfssemin breytist þannig að starfsfólki fjölgi eða fækki. Sömuleiðis verður atvinnurekendum skylt að hafa samráð við fulltrúa starfsmanna um ýmis mál. "Breytingin með þessu felst í því að það er verið að formbinda fyrirkomulag á samráði og upplýsingagjöf. Þetta er í anda góðra stjórnunarhátta og menn hafa í mörgum fyrirtækjum verið með slíkt samráð að einhverju leyti en þarna er verið að gera þetta að skyldu sem er í sjálfu sér ekki sú leið sem við hefðum kosið," segir Hrafnhildur Stefánsdóttir yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins.

Hrafnhildur segir þó að nokkuð svigrúm sé innan þessa ramma fyrir fyrirtæki að finna sinn takt. Ef fyrirtæki sinna ekki þessari upplýsinga- og samráðsskyldu varðar það fésektum. Samkvæmt frumvarpinu tekur það gildi í áföngum þannig að fram til fyrsta mars 2008 gildir það eingöngu um fyrirtæki með hundrað starfsmenn eða fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×