Innlent

Kæra yfirmenn efnahagsbrotadeildar

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. MYND/Vísir

Baugsmenn hafa lagt fram kæru á hendur yfirmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og segja þá vanhæfa í rannsókn á skattamálum þeirra. Þeir neita að svara spurningum lögreglu þar til skorið hefur verið úr um hæfi rannsakenda.

Jón Ásgeir Jóhannesson, systir hans Kristín Jóhannesdóttir, Jóhannes Jónsson faðir þeirra, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, og Stefán Hilmarsson, endurskoðandi hafa lagt fram kæruna í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur til rannsóknar hvort fimmmenningarnir hafi framið skattsvik og hafa þau meðal annars verið ákærð fyrir bókhaldsbrot og fjárdrátt.

Þau telja yfirmenn efnahagsbrotadeildar hins vegar bullandi vanhæfa og í raun alla starfsmenn embættisins. Sindri Sindrason, talsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir þau ekki treysta yfirmönnum embættisins til að fara hlutlaust með málið þar sem þeir séu í raun og veru búnir að taka ákvörðun um sekt.

Arnars Jenssonar, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, ritaði grein í Morgunblaðið fyrir skömmu þar sem hann sagði fjáraustur Baugsmanna í vörn sína kalla á viðbrögð yfirvalda. Sindri segir afstöðu yfirmanna embættisins koma glöggt í ljós í grein Arnars þar sem hann líkir Baugsmönnum við mafíósa.

Ekki náðist í Jón H. Snorrason, yfirmann efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, í dag en málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×