Innlent

Sjálfstæðiskonur óttast áhrif framboðs Árna Johnsen

Stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna hefur farið fram á það við flokksforystuna að hún skoði sérstaklega mál Árna Johnsen og óttast stjórnin að framboð hans í Suðurkjördæmi kunni að draga úr fylgi flokksins á landsvísu.

Með þessu eru sjálfstæðiskonur að taka undir yfirlýsingu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna þar sem Árni, sem hugsanlegur þingmaður flokksins, er beðinn um að sýna auðmýkt þegar hann fjallar um eigin brot.

Kveikjan að þessum ályktunum eru ummæli Árna um að brot hans hafi verið "tæknileg mistök". Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skýrir Árni þessi ummæli sín. Segir þau illa valin og óviðeigandi en þau hafi fallið sem andsvar við spurningu sem Árni hafi óvænt fengið frá fréttamanni í kjölfar úrslita prófkjörsins í Suðurkjördæmi á dögunum. Árni segir að ekki hafi verið ætlunin að draga úr alvöru málsins og skilji hann vel að menn geti lesið iðrunarskort úr þessum orðum. Í lok greinarinnar ítrekar Árni að hann hafi brotið af sér og iðrist í dýpstu rótum síns hjarta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×