Innlent

Kársnesbrautin gæti farið í stokk

Kársnesbrautin í Kópavogi verður hugsanlega sett í stokk til að liðka fyrir aukinni umferð samfara mikilli fólksfjölgun í vesturbæ Kópavogs. Gunnar I. Birgisson segir að Samfylkingunni hugnist lítt að fá ný atvinnutækifæri í bæinn.

Gríðarleg uppbygging er fyrirhuguð í vesturbæ Kópavogs. Oddviti Samfylkingarinnar í bænum gagnrýndi í gær að verið væri að lauma inn bakdyramegin allt að tvöföldun íbúafjölda reit fyrir reit án þess að kynna heildarsýn fyrir bæjarbúum. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir þetta rangt. Framtíðarhugmyndir um skipulag á Kársnesi til næstu 15-20 ára verði kynnt nú í byrjun desember og bendir á að Vesturbæingum í Kópavogi hafi fækkað um 4-500 manns á síðustu fjórtán árum. "Íbúafjöldinn mun ekki tvöfaldast, það er líka rangt hjá Samfylkingunni. Miðað við það sem búið er að auglýsa hér gæti kannski fjölgað um 1500-2000 manns."

Samfylkingin hefur einnig gagnrýnt að skipahöfn komi yst á nesið með iðnaðarhverfi á landfyllingu. "Byko,stærsta fyrirtækið í bænum, hefur sótt um aðstöðu þarna fyrir sína starfsemi og Samfylkingin er greinilega ekki að bjóða þetta fyrirtæki velkomið með sinn innflutning í Kópavoginn."

Gunnar segir gámaflutninga um íbúahverfið minnki þótt höfnin stækki. En fleira fólk kallar á fleiri bíla og því er verið að íhuga ýmsa kosti til að liðka fyrir umferð. Hugsanlegt er að setja Kársnesbrautina í stokk. "Þetta er dýr lausn en með öllu þessu fólki koma náttúrlega tekjur og fólki fylgir umferð. Samfylkingin hefur verið að tala um að þarna eigi að koma smábátahöfn og hótel og aðstaða fyrir listamenn en þeim hugnast lítt að fá ný atvinnutækifæri í bæinn. Þau eru frekar á móti því."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×