Innlent

Íslendingar í samstarf við Bollywood?

Úr myndinni Bride and Prejudice.
Úr myndinni Bride and Prejudice.

Íslendingar munu leita eftir nánara samstarfi við Indverja á sviði kvikmynda og reyna að lokka framleiðendur Bollywood-mynda til landsins. Frá þessu er greint á indverska fréttavefnum newkerala.com.

Þar segir að Geir H. Haarde forsætisráðherra verði í opinberri heimsókn í Indlandi dagana 3. til 10. janúar og með honum í för verði fulltrúar úr íslenska kvikmyndageiranum. Geir muni meðal annars ræða við A.P.J. Kalam, forseta Indands og forsætisráðherrann Manmohan Singh ásamt því að heimsækja ýmsar borgir á Indlandi eins og Bangalore og Mumbai.

Haft er eftir Auðuni Atlasyni, sendiráðunauti í sendiráði Íslands í Nýju-Delí að Ísland taki jafnframt þátt í ráðstefnu á vegum Samtaka iðnaðarins í Indlands þar sem fjallað verður um kvikmyndaiðnaðinn en samhliða henni fer fram alþjóðleg kvikmyndahátíð í landinu.

Auðunn segir samkvæmt vefsíðunni að Ísland sé lítið land en sveigjanlegt og að landinn sé kvikmyndaóður. Þá er tekið fram að Íslendingum hafi tekist að lokka framleiðendur Hollywood-mynda til landsins til kvikmyndatöku en vonast sé til að framleiðendur Bollywood-mynda sýni landinu sama áhuga. Engir samningar þar að lútandi liggi þó fyrir að sögn Auðuns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×