Innlent

Hrakningar Wilke halda áfram

Hrakningum flutningaskipsins Wilke hér við land virðist ekki ætla að linna því í gær sigldi skipið á fiskiskipið Brynjólf í höfninni í Vestmannaeyjum. Engin slys urðu á fólki en töluverðar skemmdir urðu á Brynjólfi. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Wilke lenti í vandræðum suðaustur af landinu fyrir rúmri viku þegar gangtruflanir urðu í vél þess og tókst skipstjóra þess naumlega að sveigja undan óveðri sem gekk þá yfir landið og miðin.

Skipið fékk fylgd varðskips til Reyðarfjarðar en þaðan hélt það til Hafnar í Hornafirði þar sem það var lestað með sérstakri möl sem á að flytja til Bandaríkjanna. Þar var jafnframt skipt um skipstjóra. Hins vegar gat það ekki siglt frá Höfn vegna veðurs á mánudag en skipið kom til Eyja í gær til þess að láta gera við vélabúnað.

Haft er eftir Erlendi Gunnari Gunnarssyni, viðhaldsstjóra Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, á Eyjafréttum að skemmdir á Brynjólfi séu umtalsverðar en þó ekki meiri en svo að Brynjólfur fór á sjó í morgun. Ef viðgerð gengur að óskum og skýrslutöku lýkur í dag á Erlendur von á að Wilke sigli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×