Innlent

Stefndi farþegum og flugliðum í hættu með slagsmálum

Stjórnendur Flugfélags Íslands telja að maðurinn, sem efndi til slagsmála um borð í Fokker-vél félagsins á leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í gærkvöldi, hafi stefnt farþegum og flugliðum í hættu.

Flugmenn vélarinnar áræddu ekki að lenda í Reykjavík þegar þangað var komið vegna slagsmála sem brotist höfðu út í farþegarýminu. Þar hafði ölvaður farþegi ráðist á annan farþega þannig að til átaka kom þar til aðrir farþegar náðu að yfirbuga árásarmanninn. Var ekki lent fyrr en allir voru komnir í sæti sín.

Lögregla skarst í leikinn um leið og vélin var lent og var árásarmaðurinn enn hinn versti viðskiptis, svo hann var vistaður í fangageymslum og verður yfirheyrður í dag.

Að sögn Árna Gunnarssonar, forstjóra Flugfélags Íslands, líta menn þar á bæ málið mjög alvarlegum augum og búast við að ákæruvaldið fari með málið sem slíkt. Annars eigi menn enn eftir að ákveða hvort málið verði sérstaklega kært, svo það fái viðeigandi meðferð.

Einnig verður farið yfir vinnureglur við að hleypa farþegum um borð en ekkert óeðlilegt mun hafa verið í fasi mannsins þegar hann kom um borð. Hann getur átt yfir höfði sér háar sektir ef hann telst hafa telft öryggi flugvélarinnar í tvísýnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×