Innlent

Geir vill skýrari iðrun Árna

Brot Árna Johnsen voru alvarleg og villandi að tala um þau sem "tæknileg mistök" að mati forsætirsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Formaðurinn vill að Árni sýni iðrun sína með skýrari hætti. Kjördæmisþing flokksins í Suðurkjördæmi hefur enn ekki samþykkt framboðslistann þar sem Árni hlaut annað sætið.

Gott gengi Árna Johnsen í prófkjöri Sjálfstæðismanna, þar sem hann tryggði sér nokkuð öruggt þingsæti, hefur vakið misjöfn viðbrögð.

Árni sagði af sér þingmennsku í ágúst árið 2001 eftir að farið var að rannsaka misnotkun hans á opinberum fjármunum. Hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í febrúar árið 2003 fyrir mútuþægni, fjárdrátt, umboðssvik og ranga skýrslugjöf en alls var um tuttugu og tvö hegningarlagabrot að ræða.

Árni kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins fyrir skömmu þar sem hann sagði brot sín hafa verið tæknileg mistök sem enginn hafi tapað á.

Ummæli Árna hafa vakið sterk viðbrögð og Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna hefur beðið Árna um að sýna auðmýkt þegar hann ræðir brot sín.

Flokksmenn eru ekki allir sáttir við Árna og borið hefur á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum vegna málsins.

Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins staðfestir að úrsagnir hafi borist, en vill ekki gefa upp hve margir hafa sagt sig úr flokknum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi mál Árna í Íslandi í dag í gær. Geir sagði ummæli Árna ekki bara óheppileg heldur villandi, ekki sé hægt að tala um afbrot eins afbrot Árna sem tæknileg mistök. Geir sagði mikilvægt að Árni léti það koma fram með meira afgerandi hætti að hann iðrist brotanna en hann hyggst ræða málið við Árna.

Í viðtali við Ríkisútvarpið fyrr í þessum mánuði sagði Geir að Árni Johnsen nyti fyllsta trausts forystu Sjálfstæðisflokksins.

Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur enn ekki samþykkt framboðslistann. Kjörstjórn í prófkjörinu hefur ekki lokið störfum en hún stillir upp listanum út frá útkomu í prófkjörinu. Kjördæmisþing þarf svo að samþykkja listann. Þingið getur gert breytingar á listanum en fyrir síðustu Alþingiskosningar gerði þingið slíkar breytingar.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær kjördæmisþingið kemur saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×