Innlent

Starfshópur fer yfir málefni barna af erlendum uppruna

MYND/Kolbrún
Tilkynnt var á fundi menntaráðs Reykjavíkurborgar í gær að stofna ætti starfshóp um málefni barna af erlendum uppruna sem stunda nám í grunnskólum borgarinnar. Starfshópnum er meðal annars ætlað að gera tillögur um úrbætur í þjónustu við börn og unglinga af erlendum uppruna, þar á meðal í íslenskukennslu.

Í tilkynngu frá menntaráði kemur fram að hópurinn eigi að safna saman skilgreiningum sem lagðar eru til grundvallar í umræðunni um málefni innflytjenda og beita sér fyrir samræmingu í þeim efnum. Þá á að skoða fyrirliggjandi kannanir og rannsóknir á stöðu og gengi innflytjenda í grunnskólum og gera tillögur um frekari athuganir ef með þarf.

Þá var samþykkt á fundi menntaráðs að efna til málþings um íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna. Fram kemur í fundargerð að þar eigi að ræða núverandi stöðu og framtíðarskipulag íslenskukennslu fyrir útlendinga, eldri sem yngri. Námsflokkar Reykjavíkur hafa í samvinnu við Mími-símenntun staðið fyrir íslenskukennslu fyrir innflytjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×