Innlent

Gríðarlegt tjón á húsum varnarliðsins

Hundruð milljóna króna tjón varð á íbúðarblokkum á Keflavíkurflugvelli vegna vatns- og frostskemmda. Nýstofnað Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar segir að það sé ekki búið að fá neinar eignir afhendar ennþá. Málið er á borði utanríkisráðuneytisins.

Vitað er um skemmdir á að minnsta kosti sextán íbúðablokkum á Keflavíkurflugvelli en starfsmenn flugmálastjórnar urðu varir við miklar vatns- og frostskemmdir um helgina en húsin á Keflavíkurflugvelli sem eru mannlaus eru lítið upphituð og þoldu vatnslagnir greinilega ekki mikla frosthörku að undanförnu.

Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri segir að starfsmenn stofnunarinnar hafi síðan í gær farið um svæðið og skoðað blokkirnar og ljóst sé að um hundruðmilljóna tjón sé að ræða.

Þess má geta að kostnaður við endurbyggingu eins fjölbýlishúss á Keflavíkurflugvelli sem Keflavíkurverktakar gerðu fyrir Varnarliðið fyrir 2 til 3 árum síðan kostaði um milljarð á blokk. Magnús Gunnarsson stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sagði að enn hafi ekki verið gengið frá þjónustusamningi við ríkið um viðhald og eftirlit með eignum á Vellinum. Málið sé því á borði Utanríkisráðuneytisins sem gat ekki gefið upplýsingar um það þegar Stöð 2 leitaði til þess í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×