Innlent

Ársæll hélt aftur til veiða í morgun

Ársæll ÁR-66, tvö hundruð brúttólesta netabátur, hélt aftur til veiða í morgun en björgunarskipum Slysavarnafélags Landsbjargar í Sandgerði tókst á miðnætti að bjarga bátnum af strandstað í innsiglingunni til Sandgerðis. Ekki reyndust miklar skemmdir á bátnum.

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita á tólfta tímanum í gærkvöldi eftir að báturinn hafði siglt af leið í innsiglingunni og strandað á leið sinni upp í Eyrina við Sandgerði. Fjölmennt björgunarlið á Hannesi Þ. Hafstein og öðrum björgunarbátum brugðust skjótt við neyðarkallinu frá netabátnum. Agnar Trausti Júlíusson, skipsstjóri á björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein, sagði í samtali við NFS að svo virtist sem skipið hafi setið fast undir miðju skipsins. Þannig hafi bæði stefni og skutur verið laus en skipið sat á miðjum skrokknum. Það var dótturbátur Hannesar Þ. Hafstein, Siggi Guðjóns, sem losaði Ársæl ÁR af strandstað með því að ýta honum af festunni.

Ársæll ÁR sigldi síðan til hafnar undir eigin vélarafli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skip stranda í innsiglingunni til Sandgerðis. Ekki reyndust miklar skemmdir á bátnum og hélt hann aftur til veiða í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×