Innlent

Sveitarfélögum send viðvörun vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur á síðustu fjórum árum sent 37 sveitarfélögum viðvörun, þar af þremur á þessu ári, vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu. Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, sem hófst í morgun, kallaði Halldór Halldórsson, nýkjörinn formaður þeirra, eftir því að þau fengju aukna hlutdeild í sköttum hins opinbera og nefndi fjármagnstekjuskattinn sérstaklega.

Á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sagði Halldór að breið gjá hefði myndast í fjárhagslegri afkomu milli sveitarfélaga sem í raun endurspeglaði byggðavandann. Sú staðreynd að 37 sveitarfélög hefðu á síðustu fjórum árum fengið formlegt bréf frá Eftirlitsnefnd segði mikið um stöðu þeirra. Halldór sagði tekjur sveitarfélaganna hafa dregist saman. Tekjugrunnurinn hefði versnað og gera þurfi úrbætur á því.

Sambandið hefur óskað eftir því að haldinn verði formlegur aukasamráðsfundur milli ríkis og sveitarfélaga til að ræða aukna tekjustofna en Halldór lýsti þeirri skoðun að það væri sanngirnismál að sveitarfélögin fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×