Innlent

Ekkert ferðaveður er á landinu í kvöld og í nótt

Versnandi veður er á Vestfjörðum og með norðurströndinni með kvöldinu og má búast við að þar verði 18-23 m/s með snjókomu og skafrenningi í kvöld og nótt.

"Þetta er engan vegin gengið yfir og má raunar búast við hvössu veðri um allt land í kvöld og nótt, síst þó ef vera skyldi fyrir austan en þar verður hins vegar mjög hvasst síðla nætur og í fyrramálið" segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Veðurstofu NFS um veðurhorfurnar næstu klukkustundirnar.

"Núna í kvöld hvessir enn frekar á vestanverðu landinu og verður raunar hvassara á þeim slóðum í kvöld en verið hefur í dag segir Sigurður. Hann bætir við að nú þegar norðanáttin er að ganga inná landið kólni og að víða megi búast við snjókomu á landinu í kvöld og nótt.

"Það er því ekki mjög gæfulegt að vera á ferðinni í þessu veðri" segir Sigurður. Það byrjar að lægja á vestanverðu landinu um þrjú leytið í nótt að sögn Sigurðar en austan til lægir ekki fyrr en líða tekur nokkuð á morgundaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×