Innlent

Stofnfundur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf.

MYND/Valli

Magnús Gunnarsson verður formaður stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. en félaginu er ætlað að leiða þróun og umbreytingu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem koma á í arðbær borgaraleg not. Stofnfundur félagsins var haldinn í Reykjanesbæ í morgun í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september síðastliðnum.

Félagið, sem lýtur forræði forsætisráðherra, á m.a. að annast nauðsynlega undirbúningsvinnu, svo sem úttekt á svæðinu og á þróunar- og vaxtarmöguleikum sem í því felast og hafa samráð við aðila sem þar hafa hagsmuna að gæta. Þá mun félagið á grundvelli þjónustusamninga við ríkið annast rekstur, umsjón og umsýslu tiltekinna eigna íslenska ríkisins á svæðinu, þ.m.t. umsjón með sölu og útleigu eigna, hreinsun svæða og eftir atvikum niðurrifi mannvirkja, sem og önnur skyld starfsemi.

Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. er skipuð Magnúsi Gunnarssyni, sem jafnframt er formaður stjórnar, Stefáni Þórarinssyni og Árna Sigfússyni. Varamenn eru Hildur Árnadóttir, Helga Sigrún Harðardóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×