Innlent

Erlendir ríkisborgar fylla þriðjung nýrra starfa

Erlendir ríkisborgarar hafa fyllt um þriðjung þeirra um það bil níu þúsund starfa sem orðið hafa til á yfirstandandi hagvaxtarskeiði. Til samanburðar urðu til ellefu þúsund ný störf í síðustu uppsveiflu og þá fylltu erlendir ríkisborgarar um fjórðung þeirra. Þetta kemur fram haustsskýrslu Þjóðarbúskaparins sem fjármálaráðuneytið gefur út.

Þar kemur einnig fram að hlutfall erlendra ríkisborgara af starfandi fólki í landinu hefur aukist úr rúmum tveimur prósentum árið 1998 í fimm og hálft prósent í fyrra, sem sagt um það bil tvöfaldast á sjö árum. Jafnframt hefur erlendum ríkisborgurum að störfum fjölgað úr 3.400 í níu þúsund á tímabilinu. Segir á vef fjármálaráðuneytisins að allan þennan tíma hafi megináhrifavaldur aðflutningsins verið eftirspurn íslenskra atvinnurekenda eftir vinnuafli og því hefur atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á starfsaldri verið há.

Tölur fjármálaráðuneytisins leiða einnig í ljós að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mest í mannvirkjagerð, en þar skipa þeir yfir 40 prósent af nýjum störfum. Hlutfall erlendra starfsmanna er litlu lægra í vexti starfa í hótel- og veitingaþjónustu. Í fiskveiðum, fiskvinnslu og öðrum iðnaði hefur starfsmönnum fækkað samtals um tæplega 6.000 á tímabilinu en þrátt fyrir það fjölgaði erlendum starfsmönnum í þessum greinum um rúmlega þúsund.

Í heilbrigðis- og félagsþjónustu, þar sem störfum hefur fjölgað um 5.000, var tíundi hver nýr starfsmaður erlendur. Minnst hefur erlendum starfsmönnum hins vegar fjölgað í fjármálaþjónustu og fræðslustarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×