Innlent

Aukin harka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Aukin harka virðist vera hlaupin í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Stjórn flokksins og frambjóðendum barst fyrir helgina nafnlaust bréf þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og kosningastjórn hans voru sökuð um að hafa misnotað aðstöðu sína og hafa undir höndunum ítarlegan lista yfir flokksmenn sem aðrir frambjóðendur hafi ekki aðgang að.

Bréfið var birt á netinu í dag á síðu Steingríms Ólafssonar, Þegar stórt er spurt.

Boðað hefur verið til fundar meðal þátttakenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík klukkan fimm í dag vegna málsins.

Í kvörtunarbréfinu sagði að listi yfir flokksmenn og símanúmer þeirra hafi verið uppfærður af sjálfboðaliðum flokksins fyrir kosningarnar í Reykjavík í vor. Bréfritarar segja ljóst að Guðlaugur hafi nú nýtt sér þessa lista á meðan aðrir frambjóðendur hafi fengið úrelta og óuppfærða lista. Ýjað er að því, að tveir þeirra sem sitji í kosningastjórn Guðlaugs séu viðriðnir málið en þeir hafi verið umsjónarmenn átaksins í vor.

Samkvæmt heimildum NFS var frambjóðendum í dag sent bréf frá Andra Óttarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, þar sem sagt er að málið hafi verið skoðað og athugun hafi ekki leitt neina misnotkun í ljós.

Keppendur um annað sætið á lista flokksins, Björn Bjarnason, Pétur Blöndal og Guðlaugur Þór Þórðarson, verða gestir í Íslandi í dag kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×