Innlent

Gera prófanir til að hægt verði að vara við eldgosum í Kötlu

Mýrdalsjökull. Eldstöðin Katla er í Mýrdalsjökli.
Mýrdalsjökull. Eldstöðin Katla er í Mýrdalsjökli. MYND/Stefán

Almannavarnir framkvæma í dag prófanir á notkun hljóðbomba sem hægt verður að nota til að vara ferðamenn að Fjallabaki við eldgosum í Kötlu.

Á svæðinu eru margir vinsælir ferðamannastaðir og nauðsynlegt að koma upplýsingum til allra á svæðinu á eins skömmum tíma og unnt er ef eldgos hefst. Þeir sem eru skráðir íbúar á svæðinu fá talskilaboð í heimasíma og SMS skilaboð í GSM síma þar sem tilkynnt verður um gos ef það hefst. Þar sem ekki er möguleiki á að nota þá tækni fyrir ferðamenn á Fjallabaki syðra eru Almannavarnir að prófa notkun hljóðbomba á svæðinu.

Prófanirnar í dag verða gerðar í Hvannagili og ef tími vinnst, einnig við Emstruskála. Meðal annars á að bera saman notkun hljóðbomba og tívolíbomba. Hljóðbomburnar eru svipaðar að gerð og neyðarflugeldar en enginn bjarmi kemur af þeim, aðeins hávær hvellur. Svipaðar hljóðbombur hafa verið notaðar í Bretlandi, þegar björgunarsveitar hafa verið kallaðar út, með góðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×