Innlent

Sendiráð Íslands taka þátt í kynningu á ákvörðun um hvalveiðar

Kynningarefni á ensku hefur verið útbúið vegna þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tilkynnti um hana á þingi í dag. Fram kemur í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu að sendiráð Íslands erlendis muni taka fullan þátt í að kynna sjónarmið Íslands erlendis og svara fyrirspurnum sem kunna að koma í kjölfar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra.

Ákvörðunin tekin á grunni stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og með hliðsjón af ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999 og gerir ráð fyrir að 9 langreyðar og 30 hrefnur verði veiddar til viðbótar þeim 39 hrefnum sem teknar verða árið 2007 við framkvæmd vísindaáætlunar Hafrannsóknastofnunarinnar, en þá verður því verki lokið sem hófst árið 2003 að safna 200 dýra úrtaki. Samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar myndu árlegar veiðar á allt að 400 hrefnum og 200 langreyðum samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu.

Einar K. Guðfinnssson sjávarútvegsráðherra sagði á þingi í dag að Alþingi hefði markað stefnuna í málinu og hann hefði verið að fara á svig við vilja þess ef hann hefði ekki reynt að hefja hvalveiðar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×