Innlent

Hróður Laufskálaréttar berst víða um heim

Þúsundir manna og hrossa komu saman í einum stærstu stóðréttum landsins í Laufskálarétt í Hjaltadal í Skagafirði. Réttirnar eru fyrir löngu orðnar landsfrægar fyrir góða stemningu og hefur hróður þeirra nú borist út um víða veröld enda var fjöldi útlendinga sérstaklega kominn til að berja augum skagfirska gæðinga og söngmenn.

Þau virtust nánast óteljandi hrossin sem streymdu inn í Laufskálarétt í dag eftir að búið var að sækja þau í afrétti Viðvíkur- og Hólahrepps. Áætlað er að stóðið hafi talið um 600 hross sem gerir réttirnar að einum þeim stærstu á landinu.

Engin hætta var á ekkert yrði ráðið við stóðið því gestirnir skiptu þúsundum og var allt gistipláss í Skagafirði upppantað fyrir helgina. Þar eru ekki einungis Íslendingar á ferð því menn töluðu fjömörgum tungum í réttinni í dag og þá voru kvikmyndatökumenn erlendis frá komnir til að fanga stemmninguna.

En sannir hestamenn láta ekki þar við sitja heldur skella sér á stóðréttaball, en það verður haldið í Reiðhöllinni á Svaðastöðum í kvöld. Þar mun sveiflukóngurinn og Skagfirðingurinn Geirmundur Valtýsson meðal annars halda uppi fjörinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×