Innlent

Birna stefnir ofarlega á lista sjálfstæðismanna í NV-kjördæmi

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, hefur ákveðið að gefa kost á sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Í tilkynningu frá Birnu segir að þar sem ekki liggi enn fyrir með hvaða hætti verður raðað á lista flokksins telji hún ótímabært að tiltaka ákveðið sæti, en hún bjóði sig fram ofarlega á listann.

„Ég tel nauðsynlegt að fulltrúar nýrrar kynslóðar skipi sér í framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi og blandi sér í hóp þeirra reynslumiklu þingmanna flokksins sem fyrir eru og hafa leitt hagsmunabaráttu íbúa kjördæmisins á Alþingi. Með sveitarstjórnarreynslu mína í farteskinu vil ég leggja þeirri baráttu lið, en mörg brýn verkefni bíða úrlausnar í kjördæminu," segir Birna.

Birna er varaþingmaður í kjördæminu eftir að hafa skipað 7. sæti á lista flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Hún var kjörin í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 1998 og leiddi þá lista sjálfstæðismanna en skipaði annað sætið í kosningunum 2002 og 2006. Hún hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1999 og gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum innan flokksins sem og á sviði sveitarstjórnarmála eins og segir í tilkynningu frá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×