Innlent

Verslanir tapa yfir þremur milljörðum á þjófnuðum

MYND/Heiða

Mikið álag er á öryggisvörðum í verslunarkjörnum og verslunum vegna þjófnaða og verslanir tapa yfir þremur milljörðum á ári vegna þjófnaða. Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu.

Bent er á að lítil aðstaða sé víða í verslunum til að bíða með þjófa þar til lögregla kemur á staðinn og ljóst að dýrmætur tími starfsmanna og lögreglu fari til spillis. Öryggisverðir segja að þjófnaður hafi aukist mikið í krónum talið og séu orðnir skipulagðari en fyrir nokkrum árum. Einnig sé munur á kynjunum þar sem karlar stela færri og dýrari hlutum en konur fleiri og ódýrari.

Þá er þjófnaður barna og unglinga er vandamál sem sérstaklega þarf að taka á, en að jafnaði eru um 4 prósent barna á aldrinum 15 til 19 ára á Íslandi kærð til lögreglu fyrir þjófnað. Eru það um 850 einstaklingar samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá.

Bent er á að vegna þjófnaða þurfi verslunareigendur að hækka vöruverð til að mæta kostnaði sem hlýst af þeim. Áhrif þjófnaða á neysluvísitölu hækki vísitölutryggð lán um 150 milljónir á ári og það sé því ekki aðeins verslunin sem tapar á þjófnuðum heldur þjóðfélagið allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×