Innlent

Trúnaðarbestur milli Valgerðar og Alþingis

"Það getur komið til þess að ráðherra sé ekki sætt," sagði Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Fréttavikunni á NFS. Kristinn vísaði þar til Valgerðar Sverrisdóttur, flokkssystur sinnar og fyrrverandi iðnaðarráðherra. Til umfjöllunar var greinargerð Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings um Kárahnjúkavirkjun og meðferð þeirra upplýsinga sem þar koma fram.

Kristinn H. Gunnarsson sagði það sitja mjög í sér að upplýsingum sem fram koma í greinargerð Gríms Björnssonar skyldi hafa verið haldið frá Alþingi við meðferð málsins á sínum tíma.

"Það situr ansi mikið í mér að upplýsingum hafi verið leynt fyrir Alþingi. Upplýsingar sem komu fram, voru teknar fyrir með formlegum hætti inni í stjórnkerfinu og voru stimplaðar sem trúnaðarmál. Það situr mjög í mér vegna þess að það er því aðeins gert til þess að koma í veg fyrir að við sjáum þetta, sem eigum svo á endanum að greiða atkvæði um lögin og bera ábyrgð á málinu," sagði Kristinn.

Hann sagði ráðherra ekki geta tekið sér það vald í hendur að skammta upplýsingar í þingið.

"Þingið sjálft verður að vega og meta hlutina. Og við sem erum þingmenn erum alveg jafndómbærir til þess að vega og meta þessar upplýsingar og fjalla um þær með eðlilegum hætti eins og ráðherrar," sagði Kristinn H. Gunnarsson.

Hallgrímur Thorsteinsson, umsjónarmaður Fréttavikunnar spurði þá, "er þetta það alvarlegt að ráðherra í svona stöðu sé ekki sætt?"

"Það getur komið til þess, af því að þetta er svo stórt mál - 100 milljarða mál. Og menn verða að sýna þinginu fullkomið traust og trúnað í þessum efnum. Það er ekki annað hægt," savaraði Kristinn H. Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×