Innlent

Talið að eldur hafi kviknað vegna leka í gaskút

Frá slökkvistarfi í gær.
Frá slökkvistarfi í gær. MYND/Vilhelm

Talið er að eldurinn sem kviknaði í efnamóttöku Sorpu í Gufunesi á sjötta tímanum í gær hafi komið til vegna leka úr própangaskút í húsinu.

Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal menn á frívakt, var kallað út vegna sprengingar í móttökunni. Slökkvilið náði fljótlega tökum á ástandinu og var slökkvistarfi að mestu lokið um hálfátta í gær. Svo öflug var sprengingin að bílskúrshurð á húsinu þeyttist út á plan þar fyrir utan. Að sögn Þóris Karls Jónassonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu, varð sprengingin í suðausturhluta hússins þar sem meðal annars var að finna própangaskúta og líklegt er talið að einn þeirra hafi lekið með fyrrgreindum afleiðingum. Slökkviliði tókst hins vegar að koma í veg fyrir að eldurinn næði inn í aðaleiturefnageymsluna í húsinu sem er í norðurhluta þess. Allir starfsmenn á staðnum sluppu ómeiddir frá slysinu en ljóst er að miklar skemmdir urðu á húsinu vegna sóts. Rannsókn málsins er nú í höndum lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×