Innlent

Vinna þarf deiliskipulag fyrir Ellingsen-reit aftur

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi deiliskipulag á svokölluðum Ellingssen-reit í vesturbæ Reykjavíkur á þeim forsendum að það samræmist ekki ákvæðum um aðalskipulag Reykjavíkurborgar.Úrskurðurinn hefur í för með sér að framkvæmdum á reitnum seinkar líklega um marga mánuði.

Reiturinn sem um ræðir afmarkast af Mýrargötu, Grandagarði og tveimur nýjum götum sem gert er ráð fyrir í rammaskipulagi. Hann er hluti af stærri heild bæði sunnan og norðan Mýrargötu sem nær frá Ánanaustum að Ægisgötu. Þar á að vera blönduð byggð.

Á Ellingsen-reitnum eru tvær lóðir, Grandagarður tvö og Mýrargata 26, og á báðum stöðum stendur til að byggja íbúarhúsnæði. Eigandi lóðarinnar að Grandagarði 2 var hins vegar ósáttur ákvarðað nýtingarhlutfall lóðar sinnar í samanburði við nýtingarhlutfall Mýrargötu 26. Hann kærði því samþykkt deiliskipulag til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Hún komst að þeirri niðurstöðu að borgin hefði brotið í veigamiklum atriðum gegn ákvæðum greinargerðar Aðalskipulags Reykjavíkur fyrir árin 2001-2024 með því að deiliskipuleggja ekki svæðið frá Ánanaustum að Ægisgötu sem heild. Var deiliskipulagið því fellt úr gildi. Samhliða þessu felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi fyrir fjölbýlishús að Mýrargötu 26 en til stóð að hefja við það framkvæmdir í sumar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir borgina vera að fara yfir úrskurðinn. Reynt verði að hraða málinu eins og unnt er en ljóst sé að fara þurfi vel yfir það. Skipulagið á svæðinu fari í gegnum hefðbundið auglýsingaferli og líklegt sé að uppbygging á svæðinu tefjist því um nokkra mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×